mánudagur, febrúar 28, 2005
Prag
Eins og sjá má af öfundarkommentum og almennu skítkasti hér fyrir neðan þá eru sumir afbrýðisamir út í Bamba. Bambi vann nefnilega ferð til Prag ....Júbbí...liggaliggalá. Nú er bara að finna hentugan tíma og heldri manna hótel helst í miðbænum og skella sér ásamt frú Bambi. Ég hef það eftir áræðanlegum heimildum að það sé bara nokkuð gaman í Prag, það var mús sem hvíslaði því að mér :) Hlakka til að komast að því hvort það sé ekki satt..
laugardagur, febrúar 26, 2005
Árshátíð
Í kvöld og því enn nóg að gera. Vonandi verður viðurgjörningur góður og vínið ósúrt. Svo er líka happdrætti, kannski að Bambi vinni! Nei grefillinn hafi það, það gerist líklega ekki. En vonandi verður fjör....
föstudagur, febrúar 25, 2005
Sá sem hefur nóg að gera
Tekur fljótlega eftir því að tíminn er naumt skammtaður. En það ber ekki að sýta því eins og maðurinn sagði: Það góða við tímann er að það kemur alltaf meira af honum. Ég hlýt því að vera bjartsýnn á að allt klárist einhvernveginn og þó lítill tími sé í dag þá kemur meira af honum á morgun.
fimmtudagur, febrúar 24, 2005
Kúba
Mig langar orðið svo til Havana að mig verkjar. Mig hefur lengi langað en nú er þetta orðið óbærilegt. Ástæðan....Ég er í kúrs sem heitir borgir og ferðamennska og þar erum við að læra um Mexíkó og Kúbu. Sá sem kennir okkur er menntaður í Mexíkó og hefur verið oft sem fararstjóri á Kúbu. Hann er hreint frábær kennari, segir skemmmtilega frá og notar kvikmyndir og tónlist í kennslu til að undirstrika andrúmsloftið sem hann er að koma til skila í fyrirlestrunum. Þetta hefur leitt til þess að ég kem syngjandi einhverja bulluspænsku heim úr hverjum tíma og spyr frú Bambi dreymandi hvenær við eigum að fara til Kúbu. Enda hefur þessi líflega kennsla gert það að verkum að ég hef drukkið í mig fróðleik um Kúbu og Mexíkó og er jafnvel farinn að leita uppi efni sjálfur á bókasöfnum. Hreint dæmalaust frábærir tímar sem maður vill ekki að taki enda. Viva Cuba
miðvikudagur, febrúar 23, 2005
Hópvinna
Ég er algerlega kominn með upp í kok af hópvinnu sem virðist vera eitthvað sérlega inn fyrirbæri í ferðamálafræðinni. Hópvinna þetta og hópvinna hitt, það liggur við að það séu fyrirskipaðar hópferðir á klósettið. Mér skilst að þessi þunga áhersla á hópvinnu sé tilkominn vegna þess að þegar við förum út í atvinnulífið þá byggist allt af hópefli og þvílíku. Vissulega er það rétt en öllu má nú ofgera. Nú til dæmis á ég og minn ágæti hópur að skrifa saman um upplifun á áfangastað. Upplifun er nokkuð persónubundið fyrirbæri og mér er því fyrirmunað að skilja af hverju það er verið að gera slíkt verkefni að hópverkefni. Kannski að við náum að bonda svo vel að við skrifum þetta sem einn hugur. Nei það held ég fjárann ekki...
þriðjudagur, febrúar 22, 2005
Fótbolti
Bambi hefur þurft að þjást hin síðustu ár. Hann er nefnilega Valsmaður og púlari, en þessi fornfrægu félög hafa ekki verið að gera neinar rósir undanfarin misseri. En nú er ekki útséð með bjartari tíð allavega hvað Val viðkemur, Liverpool þarf einhvern tíma enn til að hysja upp um sig brækurnar. Val hefur gengið alveg bærilega undanfarið og sankað að sér mönnum en þó leyfir Bambi sér varla að vona lengur að allt gangi upp. Það hefur verið svo fjári sárt að falla trekk í trekk undanfarin ár að best er að halda væntingum í lágmarki. En...... áfram VALUR
mánudagur, febrúar 21, 2005
Böh
Hmm sá nú barasta enga dauga á draugasafninu. Einhver unglingstelpa virðist vinna við að spretta fram og segja böh en ég tel næsta víst að hún var sprellifandi. Nokkuð sætt að sjá tvíhöfða lömbin og illa uppstoppaða selinn en ég hafði ekki þolinmæði í að heyra 16 draugasögur í trekk svona ófullur. Veðrið skartaði sínu fínasta á Stokkseyri öfugt við þokuna hér og merkilegt nokk þá var alveg mökkur af flugum þarna og það í febrúar, kannski að það hafi verið svona afturgöngu eða afturflugs flugur? Sá enga eyri þrátt fyrir töluverða leit og verða það að teljast vonbrigði.
sunnudagur, febrúar 20, 2005
Stokkseyri
Og Eyrarbakki. Líklega er einhver eyri þar í nágreninu, hef einsett mér að kanna það nánar á morgun. Námsferð í skólanum sjáðu til, enda fylgja víst ferðalög ferðamálafræði. Svo eigum við að skoða draugasafnið, hef heyrt að það væri prump en sjáum til kannski sé ég draug.
laugardagur, febrúar 19, 2005
Tussulegur
Afsakið orðbragðið en Bambi kúturinn er búinn að vera eitthvað hálf tussulegur í dag. Eða var það kannski tuskulegur? Eníhú já þá er ég ekki frá því að ég hafi unnið yfir mig í vikunni. Ekki vanur svona puði eftir letina undanfarið en það ætti að lagast. Kjúklíngur Ítalíanó tókst með afbrigðum í gær og verður líklega eldaður oftar. Óver and át...Bambi
föstudagur, febrúar 18, 2005
Bambabrella
Púff vúff hvað það er fínt að helgin er að koma. Nú er Bambi á leið heim að elda kjúkling ítalíanó
fyrir frú Bambi. Það verður sannkölluð Bamababrella.
fyrir frú Bambi. Það verður sannkölluð Bamababrella.
fimmtudagur, febrúar 17, 2005
Ferðamálafræði
Bambi fékk það verkefni að skrifa grein í stíl við bakþanka í fréttablaðinu. Um að gera að henda því hérna inn..
Ferðamálafræði
Það liggur við að ég sé farinn að svara með þjósti. Nú ber ekki svo að skilja að ég sé sérlega ólyndur eða óþolinmóður að eðlisfari en allt hefur sín takmörk. Nei ég er ekki að verða leiðsögumaður og nei ég stefni heldur ekki á að vinna við farseðlaútgáfu á ferðskrifstofu. Ég er hvorki í Menntaskólanum í Kópavogi né í leiðsögumannaskólanum, ég stunda nám við Háskóla Íslands. Ég stefni á að verða ferðmálafræðingur. Þetta virðist valda misskilningi í nær öllum tilfellum og er ástæðan fyrir uppsafnaðri gremju minni.
Auðvitað er þetta fáfræði í flestum tilvikum þar sem námið er nýtt og því eðlilegt að fólk rugli því saman við námið í hinum skólunum sem á sér lengri sögu. En oft eru þetta þó hreinir og beinir fordómar gagnvart náminu sem stafa af fáfræði gagnvart greininni sem slíkri.
Fólk virðist nefnilega telja að það þurfi hreint ekkert að gera fyrir gestina sem heimsækja okkur í æ ríkari mæli. Það verður jú vart við þá rápandi um miðbæinn á sumrin í skærgulu vetrarjökkunum sínum á meðan við heimamenn klæðumst stuttbuxum en telja að þeir birtist og fari af sjálfsdáðum líkt og farfuglarnir án þess að nokkuð annað þurfi til. Auðvitað er það ekki svo. Til að fyrirbyggja allan misskilning í framtíðinni ætla ég að útskýra fyrir þér lesandi góður í eitt skipti fyrir öll um hvað málið snýst .
Ímyndum okkur safn, þar sem á veggjum sýningarsalanna hanga listaverk. Tilgangur þeirra sem heimsækja safnið er að njóta verkanna og horfa á þau með eigin augum. En hvað myndi gerast ef safnstjórinn myndi taka upp á því einn daginn að afnema allar fjöldatakmarkanir inn í safnið og reyna að græða sem mest? Hann stæði uppi með yfirfullt safn í einn dag og myndi líklega þéna vel þann daginn en svo myndu viðskiptin hrynja. Gestirnir á safninu myndu ekki sætta sig við að þurfa að olnboga sig í gegnum mannþröng til að geta skoðað verkin, þeir myndu ekki sætta sig við langar biðraðir á klósettin og hálftíma bið eftir kaffisopa á teríunni. Þeir myndu aldrei koma aftur minnugir fyrri reynslu og safnið færi á hausinn.
Það sama gæti átt við um ferðamenn sem sækja okkur heim. Það þarf að hlúa að þeim og veita þeim þjónustu. Það þarf að skipuleggja aðstöðu og stýra fjölda inn á ákveðin svæði svo að upplifun gestanna verði ekki skert. Það þarf að byggja innviði og hlúa að vinsælum svæðum svo þau verði ekki fyrir skaða út af átroðningi. Það þarf að vernda menningu heimaþjóðarinnar og tryggja að óvild skapist ekki í garð ferðmannanna þegar fjöldi þeirra eykst. Það eru kannski ekki hundrað í hættunni eins og staðan er í dag þar sem „einungis“ um 300 þúsund ferðamenn komu á síðasta ári en spár gera ráð fyrir algerri sprengingu í framtíðinni og við megum eiga von á hvorki meira né minna en 3,2 milljónum ferðamanna árið 2020. Þið getið því rétt ímyndað ykkur að aðgerða og skipulagningar er þörf og það er nákvæmlega það sem ég er að læra, nákvæmlega það sem ég ætla að vinna við í framtíðinni. Nákvæmlega ferðamálafræðingur.
En nú gætu einhverjir hugsað sem svo: Viljum við nokkuð fá alla þessa ferðamenn til landsins? Er þetta ekki alltof mikið vesen fyrir ekki neitt?
Þá er því til að svara að útflutningstekjur vegna ferðamanna voru árið 2003 hvorki meira né minna en 13% af heildarkökunni sem er svipað og álbræðslurnar eru að gefa okkur í aðra hönd. Ef spár ganga eftir þá á þessi tala eftir að hækka verulega í framtíðinni. Einnig má nefna að ferðaþjónustan skapar heilmörg stöðugildi, ekki síst á landsbyggðinni þar sem sár þörf er á meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum. Það er því ekki spurning að það er vel þess virði að hafa gestrisnina í hávegum og bjóða eins mörgum til okkar og við og landið þolum. Það er okkur til hagsbóta auk þess sem við getum verið stolt af að deila og leyfa öðrum að njóta okkar stórkostlega lands.
Það er okkur til hagsbóta að mennta fólk sem getur liðsinnt, skipulagt og komið að ferðmálum á fræðilegan hátt. Það er okkur til hagsbóta að útskrifa ferðamálafræðinga frá Háskóla Íslands.
Ferðamálafræði
Það liggur við að ég sé farinn að svara með þjósti. Nú ber ekki svo að skilja að ég sé sérlega ólyndur eða óþolinmóður að eðlisfari en allt hefur sín takmörk. Nei ég er ekki að verða leiðsögumaður og nei ég stefni heldur ekki á að vinna við farseðlaútgáfu á ferðskrifstofu. Ég er hvorki í Menntaskólanum í Kópavogi né í leiðsögumannaskólanum, ég stunda nám við Háskóla Íslands. Ég stefni á að verða ferðmálafræðingur. Þetta virðist valda misskilningi í nær öllum tilfellum og er ástæðan fyrir uppsafnaðri gremju minni.
Auðvitað er þetta fáfræði í flestum tilvikum þar sem námið er nýtt og því eðlilegt að fólk rugli því saman við námið í hinum skólunum sem á sér lengri sögu. En oft eru þetta þó hreinir og beinir fordómar gagnvart náminu sem stafa af fáfræði gagnvart greininni sem slíkri.
Fólk virðist nefnilega telja að það þurfi hreint ekkert að gera fyrir gestina sem heimsækja okkur í æ ríkari mæli. Það verður jú vart við þá rápandi um miðbæinn á sumrin í skærgulu vetrarjökkunum sínum á meðan við heimamenn klæðumst stuttbuxum en telja að þeir birtist og fari af sjálfsdáðum líkt og farfuglarnir án þess að nokkuð annað þurfi til. Auðvitað er það ekki svo. Til að fyrirbyggja allan misskilning í framtíðinni ætla ég að útskýra fyrir þér lesandi góður í eitt skipti fyrir öll um hvað málið snýst .
Ímyndum okkur safn, þar sem á veggjum sýningarsalanna hanga listaverk. Tilgangur þeirra sem heimsækja safnið er að njóta verkanna og horfa á þau með eigin augum. En hvað myndi gerast ef safnstjórinn myndi taka upp á því einn daginn að afnema allar fjöldatakmarkanir inn í safnið og reyna að græða sem mest? Hann stæði uppi með yfirfullt safn í einn dag og myndi líklega þéna vel þann daginn en svo myndu viðskiptin hrynja. Gestirnir á safninu myndu ekki sætta sig við að þurfa að olnboga sig í gegnum mannþröng til að geta skoðað verkin, þeir myndu ekki sætta sig við langar biðraðir á klósettin og hálftíma bið eftir kaffisopa á teríunni. Þeir myndu aldrei koma aftur minnugir fyrri reynslu og safnið færi á hausinn.
Það sama gæti átt við um ferðamenn sem sækja okkur heim. Það þarf að hlúa að þeim og veita þeim þjónustu. Það þarf að skipuleggja aðstöðu og stýra fjölda inn á ákveðin svæði svo að upplifun gestanna verði ekki skert. Það þarf að byggja innviði og hlúa að vinsælum svæðum svo þau verði ekki fyrir skaða út af átroðningi. Það þarf að vernda menningu heimaþjóðarinnar og tryggja að óvild skapist ekki í garð ferðmannanna þegar fjöldi þeirra eykst. Það eru kannski ekki hundrað í hættunni eins og staðan er í dag þar sem „einungis“ um 300 þúsund ferðamenn komu á síðasta ári en spár gera ráð fyrir algerri sprengingu í framtíðinni og við megum eiga von á hvorki meira né minna en 3,2 milljónum ferðamanna árið 2020. Þið getið því rétt ímyndað ykkur að aðgerða og skipulagningar er þörf og það er nákvæmlega það sem ég er að læra, nákvæmlega það sem ég ætla að vinna við í framtíðinni. Nákvæmlega ferðamálafræðingur.
En nú gætu einhverjir hugsað sem svo: Viljum við nokkuð fá alla þessa ferðamenn til landsins? Er þetta ekki alltof mikið vesen fyrir ekki neitt?
Þá er því til að svara að útflutningstekjur vegna ferðamanna voru árið 2003 hvorki meira né minna en 13% af heildarkökunni sem er svipað og álbræðslurnar eru að gefa okkur í aðra hönd. Ef spár ganga eftir þá á þessi tala eftir að hækka verulega í framtíðinni. Einnig má nefna að ferðaþjónustan skapar heilmörg stöðugildi, ekki síst á landsbyggðinni þar sem sár þörf er á meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum. Það er því ekki spurning að það er vel þess virði að hafa gestrisnina í hávegum og bjóða eins mörgum til okkar og við og landið þolum. Það er okkur til hagsbóta auk þess sem við getum verið stolt af að deila og leyfa öðrum að njóta okkar stórkostlega lands.
Það er okkur til hagsbóta að mennta fólk sem getur liðsinnt, skipulagt og komið að ferðmálum á fræðilegan hátt. Það er okkur til hagsbóta að útskrifa ferðamálafræðinga frá Háskóla Íslands.
miðvikudagur, febrúar 16, 2005
Neyðin kennir...
Nöktum Bamba að vinna! Eftir einn kúrs í rekstrarhagfræði og einn í markaðsfræði hefur Bambi komist að því að hann bara fær enga peninga nema með því að vinna. Eða enga er kannski ofsagt, Bambi fékk einhverja hungurlús sem kallast námslán fyrir það eitt að taka áðurnefnda kúrsa og nokkra til en þau dugðu varla fyrir aumum hrísgrjónapakka. Þannig að Bambi einhenti sér út á vinnumarkaðinn og er svosem engin vorkunn af því og nú eru allar hillur fullar af hrísgrjónum. En eitthvað virðist hafa snarminkað tíminn í annað stúss og þar á meðal námið. En grefillinn hafi það þetta hefst allt að lokum.
þriðjudagur, febrúar 15, 2005
Þú veist hvernig þetta er
Gerðist ári menningarlegur og skrapp í leikhús. Þrælfínt stöff hjá þeim í Stúdentaleikhúsinu,þetta var leikhús sem rokkaði. Hressandi að sjá formið brotið svona skemmtilega upp og krakka sem voru virkilega að njóta þess að leika. Ekkert sem hægt er að nöldra yfir nema kannski að sum atriði voru teygð alveg að brúninni. En heilt yfir hnifskörp og skemmtileg ádeila hjá þeim.
mánudagur, febrúar 14, 2005
Ussususs
Alveg hreint yfirdrifið hvínandi nóg að gera hjá Bamba. Var rétta að skríða inn eftir fróðlegan fyrirlestur í Þjóðminjasafninu og næ rétt að pústa til tvö. Þá liggur leiðin í skólann aftur og svo beint þaðan í vinnuna þar sem ég svara ómþýðri röddu í símann til tólf. Áætluð lending í rúmi við hliðina á væntanlega steinsofandi frú Bambi er því ekki fyrr en að verða eitt. Jedúddamía hvað Bambi á bágt.
föstudagur, febrúar 11, 2005
Morgunsárið
Hvurn grefillinn á þetta orð eiginlega að þýða? Jæja það var svosem ekki tilgangurinn með rausi dagsinns. En alltént þá er Bambi vaknaður í morgunsárið og byrjaður að blaðra. Það gefst víst lítill tími til þess annars í dag þar sem dagkráin er þéttskipuð. Bambi þarf að vinna til átjánhundruð og þá tekur við vísindaferð á vinnustaðnum , hann býst því ekki við að koma heim fyrr enn eitthvaðhundruð einhverntímann. Bambi býður dyggum lesenda góða helgi og vonar að hún verði hin ágætasta.
fimmtudagur, febrúar 10, 2005
Sumsé
Sat í þessu dýrindis fína barnafmæli. Börnin voru óttalega þæg og þægileg í umgengni þannig að lítið var um óbærilegan hávaða sem oft fylgir slíkum samkundum. Svo sást ekki vín á nokkrum manni. En rúsínan í pylsuendanum var þó að Bambi fékk uppáhalds matinn sinn Humarsúpu og át svo mikið að hann situr í keng með vindverki og vanlíðan meðan þetta er ritað.
miðvikudagur, febrúar 09, 2005
Bullar og sýður á Bamba
Argh!!! Bambi var eins og dyggir lesendur vita búinn að festa sér magnara frá Ameríku. Það er skemmst frá því að segja að eftir langa og stranga bið þá kom loks gripurinn í dag...eða ekki! Bambi fékk tilkynningu í dag að hann gæti loks sótt magnarann góða inn í Kópavog og Bambi hreint dreif sig af stað eftirvæntingafullur og glaður. Þegar heim var komið var auðvitað kassinn opnaður hið snarasta og Bambi bjóst við að sjá loks dýrðina með berum augum. En sjá, þegar litið var ofan í kassan var þar hreint engin magnari. Bara gamall tóner, eitt karton af ljósritunarpappír og búnt af bæklingum frá music city. Þessar glæpamyndir frá Ameríku eru greinilega allar sannar! Sem betur fer var Bambi svo forsjáll að tryggja sendinguna þannig að fjárhagstjón ætti að vera lítið. En það verður líklega bið á frekari netverslun á þessu heimili
þriðjudagur, febrúar 08, 2005
Ég mótmæli
Nær aldrei. Ja eða kannski svona að ég nöldri með sjálfum mér eða í mesta lagi við kunningja yfir kaffibolla. En aldrei opinberlega.. Ég held ég sé algerlega hinn ídeal steríótýpíski Íslendingur að þessu leyti, margt sem fer í mig og mikið um órétti en það er bara svo fjandi kallt niðrá Austurvelli.
mánudagur, febrúar 07, 2005
Stundum...
Er maður svo latur að maður nennir varla að anda. Ég hef tekið eftir því að slíkt ástand á sér stað nær oftast á mánudögum. Auðvitað er alveg hellingur sem ég ætti að vera að gera. Verkefnin narta í hælanna á mér hvert á fætur öðru en á dögum eins þessum þá liggja þau óhreyfð. Á morgun segir sá lati, segir sá lati!
fimmtudagur, febrúar 03, 2005
Tja
Hvað er það undarlegasta sem þú hefur borðað? Þetta þykir Bamba skemmtileg spurning en hann er víst ekki svo frægur að fá inni í blöðunum og því spyr hann sig sjálfur. Tja ég ætti líklega að segja Bjór,sko dýrið þú veist ekki venjulegur bjór. Og svo hefur maður náttúrulega smakkað dádýr,hjört,björn og meira að segja djúpsteiktan krókódíl. En það alfurðulegasta sem ég hef smakkað hlýtur að vera þegar ég í einhverju forheimsku kasti tók upp á því að panta mér fisk á subbulegum stað í París. Það sem kom úr eldhúsinu var einhvers konar gul stappa sem líktist einna helst plokkfisk. Eina bragðið sem ég greindi var hvítlaukur og ég hef ekki hugmynd um hvort það var nokkur fiskur í þessu yfir höfuð, en eftir á að hyggja vona ég ekki. Það skal tekið fram að þessi réttur var látinn að mestu leyti óhreyfður.
miðvikudagur, febrúar 02, 2005
Olé
Ég gerðist suðrænn og skellti mér á Tapas barinn í kvöld ásamt frú Bambi. Alveg fannst mér það fyrirtaks staður og maturinn í hæsta máta ágætur. Hingað til hefur Bambi ekki þótt mikill matmaður og stundum hreinlega átt í vandræðum með að klára diskinn sinn. Bamba hreinlega leiðist stundum að borða og gerir það af skyldurækni einni. En á þessum ágæta stað bar svo við að Bambi leifði engu af diskunum sínum. Snilldar hugmynd svona smáréttir. Héðan í frá smáréttir í öll mál, takk fyrir!
þriðjudagur, febrúar 01, 2005
Ó
Mig auman, mikið déskoti er ég þreyttur eftir daginn. Búinn að púla í allan dag til þess að eiga aur fyrir lífsins nauðsynjum og ónauðsynjum. Nauðsynji eru nauðsynleg og ónauðsynji krydda tilveruna. Að vísu gæti orðið púla gefiið ranga mynd af vinnu Bamba sem felst í því að svara í síma allan liðlangan daginn. Er ekki púl meira svona tengt við að stafla sveittur hveitisekkjum í skemmur eða vinna við að flytja píanó? Og þó Bamba finnst að símsvörun geti verið argasta púl, maður verður bara öðruvísi þreyttur.
Gerast áskrifandi að:
Ummæli (Atom)