fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Ferðamálafræði

Bambi fékk það verkefni að skrifa grein í stíl við bakþanka í fréttablaðinu. Um að gera að henda því hérna inn..

Ferðamálafræði

Það liggur við að ég sé farinn að svara með þjósti. Nú ber ekki svo að skilja að ég sé sérlega ólyndur eða óþolinmóður að eðlisfari en allt hefur sín takmörk. Nei ég er ekki að verða leiðsögumaður og nei ég stefni heldur ekki á að vinna við farseðlaútgáfu á ferðskrifstofu. Ég er hvorki í Menntaskólanum í Kópavogi né í leiðsögumannaskólanum, ég stunda nám við Háskóla Íslands. Ég stefni á að verða ferðmálafræðingur. Þetta virðist valda misskilningi í nær öllum tilfellum og er ástæðan fyrir uppsafnaðri gremju minni.

Auðvitað er þetta fáfræði í flestum tilvikum þar sem námið er nýtt og því eðlilegt að fólk rugli því saman við námið í hinum skólunum sem á sér lengri sögu. En oft eru þetta þó hreinir og beinir fordómar gagnvart náminu sem stafa af fáfræði gagnvart greininni sem slíkri.

Fólk virðist nefnilega telja að það þurfi hreint ekkert að gera fyrir gestina sem heimsækja okkur í æ ríkari mæli. Það verður jú vart við þá rápandi um miðbæinn á sumrin í skærgulu vetrarjökkunum sínum á meðan við heimamenn klæðumst stuttbuxum en telja að þeir birtist og fari af sjálfsdáðum líkt og farfuglarnir án þess að nokkuð annað þurfi til. Auðvitað er það ekki svo. Til að fyrirbyggja allan misskilning í framtíðinni ætla ég að útskýra fyrir þér lesandi góður í eitt skipti fyrir öll um hvað málið snýst .

Ímyndum okkur safn, þar sem á veggjum sýningarsalanna hanga listaverk. Tilgangur þeirra sem heimsækja safnið er að njóta verkanna og horfa á þau með eigin augum. En hvað myndi gerast ef safnstjórinn myndi taka upp á því einn daginn að afnema allar fjöldatakmarkanir inn í safnið og reyna að græða sem mest? Hann stæði uppi með yfirfullt safn í einn dag og myndi líklega þéna vel þann daginn en svo myndu viðskiptin hrynja. Gestirnir á safninu myndu ekki sætta sig við að þurfa að olnboga sig í gegnum mannþröng til að geta skoðað verkin, þeir myndu ekki sætta sig við langar biðraðir á klósettin og hálftíma bið eftir kaffisopa á teríunni. Þeir myndu aldrei koma aftur minnugir fyrri reynslu og safnið færi á hausinn.
Það sama gæti átt við um ferðamenn sem sækja okkur heim. Það þarf að hlúa að þeim og veita þeim þjónustu. Það þarf að skipuleggja aðstöðu og stýra fjölda inn á ákveðin svæði svo að upplifun gestanna verði ekki skert. Það þarf að byggja innviði og hlúa að vinsælum svæðum svo þau verði ekki fyrir skaða út af átroðningi. Það þarf að vernda menningu heimaþjóðarinnar og tryggja að óvild skapist ekki í garð ferðmannanna þegar fjöldi þeirra eykst. Það eru kannski ekki hundrað í hættunni eins og staðan er í dag þar sem „einungis“ um 300 þúsund ferðamenn komu á síðasta ári en spár gera ráð fyrir algerri sprengingu í framtíðinni og við megum eiga von á hvorki meira né minna en 3,2 milljónum ferðamanna árið 2020. Þið getið því rétt ímyndað ykkur að aðgerða og skipulagningar er þörf og það er nákvæmlega það sem ég er að læra, nákvæmlega það sem ég ætla að vinna við í framtíðinni. Nákvæmlega ferðamálafræðingur.

En nú gætu einhverjir hugsað sem svo: Viljum við nokkuð fá alla þessa ferðamenn til landsins? Er þetta ekki alltof mikið vesen fyrir ekki neitt?

Þá er því til að svara að útflutningstekjur vegna ferðamanna voru árið 2003 hvorki meira né minna en 13% af heildarkökunni sem er svipað og álbræðslurnar eru að gefa okkur í aðra hönd. Ef spár ganga eftir þá á þessi tala eftir að hækka verulega í framtíðinni. Einnig má nefna að ferðaþjónustan skapar heilmörg stöðugildi, ekki síst á landsbyggðinni þar sem sár þörf er á meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum. Það er því ekki spurning að það er vel þess virði að hafa gestrisnina í hávegum og bjóða eins mörgum til okkar og við og landið þolum. Það er okkur til hagsbóta auk þess sem við getum verið stolt af að deila og leyfa öðrum að njóta okkar stórkostlega lands.

Það er okkur til hagsbóta að mennta fólk sem getur liðsinnt, skipulagt og komið að ferðmálum á fræðilegan hátt. Það er okkur til hagsbóta að útskrifa ferðamálafræðinga frá Háskóla Íslands.

Engin ummæli: